Saga sveitarinnar

Eins og lúðrar hafa frá öndverðu verið tengdir orrustugný, þá fer ekki hjá því að saga Lúðrasveitar verkalýðsins á þessum langa tíma sé baráttusaga. Saga hennar sem annarra lúðrasveita áhugamanna verður ætíð annáll baráttu við margháttaðan andbyr á köflum – skort á fé, húsrými eða hljóðfærum, svo fátt eitt sé talið. En sem ljóst má vera af því er við sjáum og heyrum hér á afmælistónleikunum þá hafa menn ætíð fundið þau úrræði sem dugðu og sótt fram skref fyrir skref.

Stofnunin

Við höfum hér minnst á tengsl lúðrasveita og baráttu og ómar frá baráttu berast að eyrum þegar við nú tökum að rekja tildrög stofnunar sveitarinnar árið 1953. Frá því er fyrsta kröfuganga verkalýðssamtaka á Íslandi var farin árið 1923 hafði lúðrasveit að sjálfsögðu verið ómissandi þáttur hátíðarhaldanna. En er hér var komið sögu var klofnings tekið að gæta í röðum verkalýðssamtakanna og stundum farnar þrjár kröfugöngur andstæðra fylkinga. Þetta varð þess valdandi að samkeppni varð um þær tvær lúðrasveitir sem fyrir hendi voru í Reykjavík og töldu forsvarsmenn meirihluta Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna nauðsyn bera til að koma á fót lúðrasveit sem reiða mætti sig á í slíkum sviptingum.

Það mun hafa verið hinn 13. febrúar 1953 að Stefán Ögmundsson prentari og síðar formaður MFA kom að máli við Harald Guðmundsson prentara og síðar tónlistarkennara á Neskaupstað og bað hann að kanna hvort grundvöllur mundi fyrir stofnun sérstakrar „verkalýðslúðrasveitar.” Haraldur ræddi hugmyndina við Sigursvein D. Kristinsson tónskáld og varð það úr að freistað skyldi að mynda slíka sveit. Var senn tekið að huga að hugsanlegum þátttakendum og útvegun hljóðfæra.

Þann 1. mars var undirbúningsfundur að stofnuninni haldinn á heimili Sigursveins að Grettisgötu 64 og hafði þá komið í ljós að ýmsir höfðu heitið þátttöku og loforð fengist um fáein hljóðfæri. Þar á meðal gat Oddgeir Kristjánsson tónskáld í Vestmannaeyjum lofað þremur hornum. Þótt þetta væru ekki ríkuleg fararefni var samt ekki beðið boðanna en nefnd sett á laggirnar til undirbúnings stofnfundi sem haldinn var að Grettisgötu 64, hinn 8. mars. Hér skulu þeir nú taldir sem stofnfundinn sátu:

Guðmundur Norðdahl hljóðfæraleikari, Bárður Jóhannesson hljóðfæraviðgerðamaður, Páll G. Bjarnason prentari, Jón Sveinsson og Haraldur Guðmundsson prentari. Nokkrir er heitið höfðu þátttöku sátu ekki fundinn en töldust stofnfélagar eftir sem áður. Þeir voru Jón Múli Árnason þulur, Ingvar Bjarnason prentari, Þórólfur Daníelsson prentari, Þórður U. Þorfinnsson netagerðarmaður, Jón Haraldsson múrari, Gísli Halldórsson rafvirki, Guðmundur Haraldsson og Bragi Skarphéðinsson prentari.  Formaður hinnar fyrstu stjórnar var kjörinn Bárður Jóhannesson, Guðmundur Norðdahl ritari og Sigursveinn D. Kristinsson gjaldkeri.

Rauða lúðrasveitin

Lúðrasveitir verkalýðssamtaka eða þá fjölmennra vinnustaða höfðu um langan aldur verið við lýði í öðrum löndum þegar Lúðrasveit verkalýðsins var stofnuð. Hún var hins vegar fyrsta sveitin er talist gat af því tagi hér á landi, þar sem hún naut fulltingis Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna.

Margir horfðu á þessum árum vonaraugum til verkalýðsríkisins austur í Rússlandi og löngum hafa menn kímt að samúðarkveðju sem stofnfundur lúðrasveitarinnar símsendi sendiráði Sovétríkjanna vegna fráfalls Jóseps Stalíns, en hann hafði andast þrem dögum áður og lá nú á viðhafnarbörum í Kreml. Það var í samræmi við þennan anda að fyrstu einkenni sveitarinnar voru einkennishúfa með eldrauðum kolli, prýdd rauðri stjörnu. Þessi rauða einkennishúfa var borin í tvö ár uns við tók húfa með rauðum borða og gráum kolli. Síðan hefur rauði og þá grái liturinn látið undan síga og grænt hefur lengi verið hinn ríkjandi litur í einkennum sveitarinnar.  En óumdeilt er að á fyrstu árum sínum var Lúðrasveit verkalýðsins „rauða lúðrasveitin”. Félögum fjölgaði skjótt og eru ekki tök á að lengja þetta mál með að telja upp nöfn þeirra allra.

Fyrstu skrefin

Fyrsti stjórnandinn var Haraldur Guðmundsson, en hann var prentari að iðn og fjölhæfur tónlistarmaður. Undir hans stjórn voru æfingar hafnar á ýmsum stöðum, svo sem í MÍR-salnum við Þingholtsstræti, kaffistofu sorptækna við Vegamótastíg og á kaffistofu Þjóðviljans. Sem ráða má af áður sögðu voru hljóðfæri fengin úr ýmsum áttum og skal hér getið fornrar túbu sem menn lögðu á sig að aka eftir austur til Víkur í Mýrdal, en þar hafði lúðraflokkur verið við lýði á árunum í kringum 1910.  1. maí árið 1953 leið þó hjá án þess að hin nýja lúðrasveit kæmi þar við sögu og kom sveitin fyrst fram fjórum dögum seinna eða þann 5. maí. Þá lék hún á „Þjóðarráðstefnunni gegn her í landi” ásamt „Söngfélagi verkalýðssamtakanna” og þann 10. sama mánaðar var farið suður í Sandgerði ásamt Söngfélaginu og leikið í samkomuhúsinu og fyrir utan hraðfrystihúsið í kaffitíma verkafólksins. Í júní voru kosningar og lék sveitin á kosningafundum C-lista Sósialistaflokksins í Gamla bíói og í

Tívolí í Vatnsmýrinni. Það var um þetta leyti að klausa birtist í Vísi þar sem rætt var um þessa „rauðu lúðrasveit” og sagt að lúðrana mundi hún hafa fengið að gjöf „úr austri.” Þetta var þó ekki alskostar rétt. En spádómsneisti virðist hafa verið falinn í fréttinni, þar sem sveitin fékk nokkur hljóðfæri frá A-Þýskalandi árið 1957 við lágu verði. Sama ár fékk sveitin til umráða skúr við norðanvert húsið að Tjarnargötu 20 og innréttuðu félagar hann í sjálfboðavinnu svo nýta mætti hann til æfinganna.

Árið 1954 var stofnað Samband íslenskra lúðrasveita fyrir forgöngu Karls O. Runólfssonar tónskálds og var Lúðrasveit verkalýðsins meðal stofnenda. Lék hún fyrst með á þriðja landsmótinu í Vestmannaeyjum árið 1960. Hefur sveitin sótt öll síðari landsmót sambandsins fram til þessa að einu undanskildu og félagar hennar hafa verið virkir í stjórnarstörfum þess.

Starfið mótast

Haraldur Guðmundsson var stjórnandi sveitarinnar til ársins 1955, er hann fluttist til Norðfjarðar og tók Jón Ásgeirsson tónskáld við veturinn næsta en Jón S. Jónsson tónlistarmaður vorið 1956. Jón stjórnaði til ársins 1958 er hann fluttist til Bandaríkjanna. Þá tók Jón Ásgeirsson við stjórninni að nýju og hélt um tónsprotann næstu fjögur árin eða til 1962.

Ekki verður komist hjá að minnast hér ögn á fjárhaginn, sem sífellt vill verða naumur í lúðrasveit, þrátt fyrir að allt sé starfið unnið í sjálfboðavinnu. Á síðum fundabókanna skýtur enda upp ýmsum hugmyndum til fjáröflunar, svo sem að félagar greiði árgjald eða að komið sé á fót styrktarmannakerfi. Fæst af þessu bar þó umtalsverðan árangur, kæmist það í framkvæmd á annað borð. Nokkur verkalýðsfélaganna lögðu fram nokkurn styrk til sveitarinnar sem munaði hana miklu. Þá var það merkur áfangi er borgarráð ákvað fyrst að veita lúðrasveitinni árlegan starfsstyrk um árið 1960.

Einn er sá atburður á þessu árabili sem ekki má láta hjá líða að geta. Árið 1958 gekk fyrsta konan til liðs við lúðrasveitina og var hún Anna Friðriksdóttir, sem lék á saxófón. Síðar hefur kvenþjóðin heldur betur aukið hlut sinn í starfinu.

Fyrsti formaðurinn, Bárður Jóhannesson, starfaði aðeins til hausts árið 1953 og tók við af honum Páll G. Bjarnason. Páll var formaður þrjú næstu árin en þá varð Ólafur L. Kristjánsson formaður. Hann gegndi starfinu í átta ár af stakri atorku og fórnfýsi.  Jón Ásgeirsson tónskáld lét af stjórninni árið 1962 sem áður segir og var Björn Guðjónsson trompetleikari ráðinn stjórnandi um haustið. Jafnframt flutti sveitin úr skúrnum við Tjarnargötu og hóf æfingar í MÍR-salnum að Þingholtsstræti 27.

Með eftirminnilegri atburðum um þetta leyti var þátttaka lúðrasveitarinnar í landsmóti lúðrasveita á Ísafirði árið 1963, en þá tók sveitin ásamt Lúðrasveitinni Svanur og Lúðrasveit Selfoss strandferðaskipið Esju á leigu, sem gegndi hlutverki gistihúss meðan mótið stóð. Þessi för var ágætlega heppnuð og mun mótið á Ísafirði með eftirminnilegri landsmótum í huga eldri lúðrasveitarmanna. Þar var einn félaga LV, Jón Múli Árnason, kynnir mótsins, en hann var sjálfkjörinn til þess hlutverks á hverju landsmóti meðan hann þeytti Connkornet sinn með sveitinni.

Ólafur L. Kristjánsson tekur við stjórn

Enn urðu stjórnendaskipti haustið 1963. Sigursveinn D. Kristinsson tók við stjórn og stjórnaði tvo vetur, en haustið 1964 tók við af honum Ólafur L. Kristjánsson. Var hann stjórnandi sveitarinnar hvorki meira né minna en þrettán næstu árin.

Koma Ólafs að stjórnandastarfinu markaði tvímælalaust upphaf að samfelldri sókn fram á við, en þótt Ólafur léti hér með af formennsku og hlutverki 1. trompetleikara var hann stöðugt helsta driffjöðrin í félagsstarfinu og ódeigur að hvetja sína menn. Hann hafði og ötula áhugamenn sér við hlið og ekki síst bar langt samstarf þeirra Atla Magnússonar drjúgan árangur meðan sá síðarnefndi gegndi formennsku.

Það var um þetta leyti (árið 1964) að sveitin kom sér upp nýjum einkennum, sem voru grá skikkja ásamt húfu í stíl sem borin voru til ársins 1969. Snemma árs 1967 batnaði hljóðfærakosturinn verulega er fjögur horn voru keypt frá Englandi og enn frekar skömmu síðar er henni bættust fimm rússnesk horn sem hún festi kaup á að lokinni vörusýningu A-Evrópuríkja í Laugardalshöll.

Enn var flutt árið 1967 og húsnæði tekið á leigu að Vesturgötu 3, sem sveitin deildi með ökuskóla Geirs Þormars. Sama haust kom til liðs við sveitina blásaraflokkurinn „Léttir tónar”, er starfað hafði um tíma í Kópavogi undir stjórn Karls Jónatanssonar, og sameinaðist hluti hans sveitinni. Hér reyndist um mikil heillatilvik að ræða, því þarna á meðal voru tveir dyggustu og bestu félagar er með sveitinni störfuðu um langt skeið – þeir Björgvin Kjartansson baritonleikari og Sigurður Hannesson túbuleikari.

Sveitin hafði nú stækkað óðum, taldi um tuttugu manns og þann 1. maí 1968 lék hún sérstakt prógram í útvarp fyrsta sinni. Er vert að geta þess atburðar hér sérstaklega, þar sem það var fastur liður mörg næstu árin. Fyrst kom sveitin svo fram í sjónvarpi 1. maí 1970. Löngu síðar eða árið 1991 gerði sjónvarpið svo aftur þátt með sveitinni sem sendur var út þann 1. maí það ár.

Efnt til tónleika

Í þessu ágripi verða ekki talin upp þau ótalmörgu tilefni er sveitin lék við, heldur er sem sjá má dvalið fyrst og fremst við hina félagslegu hlið. En óhjákvæmilegt er að geta þess sem stóráfanga á ferlinum þegar efnt var til fyrstu tónleikanna, en þeir voru haldnir í Austurbæjarbíói vorið 1970. Kostaði það ótrúlega elju að ná að stíga þetta skref og menn fundu að sveitin hafði flust upp um þrep. Kom ágæt frammistaða hennar þarna raunar verulega á óvart.

Annar mikill áfangi var það einnig er sveitin kom fram í fyrsta fullkomna einkennisbúningi sínum þann 17. júní sama ár. Var það ekki síst að þakka auknum skilningi verkalýðsfélaganna að þetta tókst, en stuðningur þeirra við sveitina mátti nú heita orðinn almennur.

Skúlatún 6

Árið 1969 hóf sveitin æfingar á efstu hæð hússins að Skipholti 21, og leigði hún það af Hrafni Jónssyni kaupmanni. Var þetta besta æfingahúsnæðið er sveitin hafði notið fram til þess tíma. Þar hafði hún aðsetur uns sá atburður varð árið 1974 sem menn hefðu talið harla ótrúlegt að átt gæti sér stað. Lúðrasveit verkalýðsins festi kaup á eigin húsnæði. Hér var um að ræða vart fokheldan sal undir rjáfri hússins að Skúlatúni 6, en stóran og hentugan. Var það fyrir sérstaka lánafyrirgreiðslu verkalýðsfélaga að þetta var unnt. Salurinn að Skúlatúni 6 (nú Þórunnartún 6) hefur verið innréttaður í áföngum af félögum sjálfum á liðnum árum og er hann sá grunnur sem treysta má að endist starfinu til öruggs áframhalds og eflingar.

Stjórn Ellerts Karlssonar

Ólafur L. Kristjánsson lét af starfi stjórnanda árið 1977 sem áður getur og var ástæðan að annir hans við stjórn unglingalúðrasveita höfðu farið vaxandi. Fór vel á er þau urðu lok á ferli Ólafs með sveitinni að hún fór undir hans stjórn á mót Norrænu alþýðutónlistarsamtakanna í Noregi sumarið 1977 og var það fyrsta utanför hennar og varð henni til mikils sóma. Þennan mesta brautryðjanda sinn gerði sveitin að heiðursfélaga sínum árið 1989.

Hæfur og dugmikill stjórnandi er lúðrasveit sem öðrum tónlistarfélögum eitt hið mesta lán. Sæti Ólafs L. Kristjánssonar tók  Ellert Karlsson trompetleikari, fyrrum stjórnandi Lúðrasveitar Vestmannaeyja og á æskuárum nemandi Oddgeirs Kristjánssonar tónskálds. Ellert var því reyndur lúðrasveitarmaður, tónlistarkennari að mennt og hafði um árabil verið fyrsti trompetleikari Lúðrasveitarinnar Svanur. Þegar hann réðst til Lúðrasveitar verkalýðsins var hann og orðinn þekktur sem vandaður og hugkvæmur útsetjari tónlistar fyrir lúðrasveitir. Naut sveitin hins ágæta starfs hans á þessu sviði næstu árin og gerir enn: Ellert heldur áfram að vinna að þessum afar þörfu efnum er of fáir af íslenskum tónlistarmönnum hafa sinnt.

Með komu Ellerts að sveitinni hófst því nýr kafli á göngu hennar til aukins vegs og virðingar. Tónleikarnir voru orðnir árviss viðburður og ekki hafði Ellert Karlsson lengi verið við stjórnina er þeir urðu tveir á ári hverju -haust og vortónleikar- og er það nú orðið að venju. Tónleikagestir urðu vitni að jöfnum og stöðugum framförum í leik, auk þess sem flokkur hljóðfæraleikaranna óx jafnt og þétt. Var nú mjög um skipt frá því sem var á bernskuárum sveitarinnar. Upp var vaxin kynslóð af ungu tónlistarfólki sem notið hafði kennslu á vegum skólalúðrasveitanna og sóttist eftir

að leika áfram í lúðrasveit er því námi lauk. Viðgangur lúðrasveitastarfs í landinu síðari árin er þessari þróun ekki síst að þakka.

Undir stjórn Ellerts fór sveitin tvívegis utan. Árið 1986 lá leiðin til Rostock í A-Þýskalandi á mót lúðrasveita þar og var sveitin glögglega með þeim fremstu í hópi þátttakenda. Þá sótti hún mót Nordisk Arbejder Sangerforbund í Óðinsvéum sumarið 1988. Til Kolin í Tékkóslóvakíu hélt sveitin svo árið 1989 undir stjórn eftirmanns Ellerts, Jóhanns Ingólfssonar, en þar tók hún þátt í alþjóðlegu lúðrasveitamóti. Því er óhætt að segja að hún sé vön orðin langferðum og hafi öðlast nokkurn heimsborgarabrag! Og vissulega jók það á sjálfstraust félaganna að í þessum langferðum skrýddust þeir nú þeim glæsta einkennisbúningi er sveitin lét gera sér árið 1983 og bar í fyrsta sinn á vortónleikum það ár. Stórfelld endurnýjun varð á hljóðfærakosti árið 1986 þegar sveitin festi kaup á  fjórum túbum og tveimur baritonhornum af Bessongerð auk Yamaha pikkolóflautu, klarinetti og Es-horni.

Þegar Ellert kvaddi sveitina árið 1988 eftir að hafa verið með hana í ellefu ár undir markvissri stjórn sinni vonuðu menn að sá maður tæki við er tryggt gæti að árangurinn er náðst hafði glataðist ekki. Sú von rættist er að sveitinni var ráðinn einn okkar bestu félaga, Jóhann Ingólfsson

klarinettuleikari. Jóhann hafði gengið í sveitina árið 1976 og lokið einleikaraprófi á hljóðfæri sitt. Hann stjórnaði um tveggja ára bil og er víst um að sveitin hafði síður en svo lækkað seglin þegar Jóhann hvarf frá stjórn að öðrum verkefnum 1991. Í stjórnandatíð Jóhanns Ingólfssonar, nánar tiltekið árið 1989, gaf lúðrasveitin út sína fyrstu og einu hljómplötu sem ber að hið skemmtilega nafn Lúðraþytur.

Enn var gæfan okkur hliðholl: Stjórnandi Lúðrasveitar verkalýðsins gerðist enskur tónlistarkennari, Malcolm Holloway. Hann er menntaður tónlistarmaður sem leikið hefur með fremstu enskum lúðrasveitum.

40 ára afmælið og lýðveldishátíð

Árið 1993 var svo sannarlega stórt ár hjá Lúðrasveit verkalýðsins. Sveitin átti 40 ára afmæli og haldnir voru myndarlegir afmælistónleikar í Háskólabíói þann 20. mars. Jafnframt var sett upp sögusýning í anddyri bíósins með myndum úr starfinu, ýmsum sögulegum munum og gömlum hljóðfærum. Gefið var út myndarlegt 36 síðna afmælisblað og er þar meðal annars að finna afbragðs gott ágrip af sögu sveitarinnar eftir Atla Magnússon, fyrrum básúnuleikara sveitarinnar og síðar heiðursfélaga. Við stjórnvölinn var Malcolm Holloway sem með öguðum vinnubrögðum og mikilli þolinmæði bætti enn frekar spil sveitarinnar. Á afmælistónleikunum voru hljóðfæraleikararnir 50 talsins og undir tók í Háskólabíói í prógrammi sem spannaði dagskrá frá Austfjarðaþoku Inga T. og til Haustsins eftir Vivaldi.

Árið 1994 er eitt annasamasta árið í sögu LV og þá sér í lagi júnímánuður það ár. Síðla vetrar hlaut sveitin þann mikla heiður að vera valin til þess að spila á 50 ára lýðveldisafmælinu á Þingvöllum. Reykjavíkurborg óskaði einnig eftir kröftum LV í sérstaka tveggja daga lýðveldishátíð í Reykjavík dagana 18. og 19. júní. Að loknum vortónleikum í apríl hófst undirbúningur fyrir hátíðarhöldin. Það var svo föngulegur hópur sem lagði af stað árla morguns 17. júní til Þingvalla í strætisvagni. LV stóð þar vaktina allan daginn og spilaði vítt og breitt um svæðið. Þegar á daginn leið kom í ljós að ýmislegt hafði farið úrskeiðis í skipulagningu umferðar til Þingvalla og tugir þúsunda komust aldrei á leiðarenda. Eftirminnileg voru svipbrigði nefndarmanna í undirbúningsnefndinni; dagurinn var þeim greinilega

erfiður og vonbrigðin mikil. Næstu tvo daga spilaði sveitin svo vítt og breitt í Reykjavík, m.a. marseraði hún í langri göngu um Laugardalinn.

Helgina á eftir var svo landsmót SÍL í Stykkishólmi og að sjálfsögðu lét LV sig ekki vanta þar. Tókst sú ferð með miklum ágætum, en ekki var laust við að þreytu væri farið að gæta í hópnum þegar leið á helgina.

Ekki má gleyma að minnast á einn merkisviðburð sem átti sér stað vorið 1994. Í maímánuði fengum við kærkomna heimsókn frá danskri lúðrasveit frá Óðinsvéum, Lindö Concert Band. Héldu sveitirnar sameiginlega tónleika í Bústaðakirkju þann 26. maí 1994, sem tókust með miklum ágætum. Á meðan á dvöl þeirra á Íslandi stóð voru heilmikil samskipti milli sveitanna, meðal annars var prýðilegt skemmtikvöld haldið auk þess sem meðlimir LV fylgdu þeim í öllum ferðum þeirra, innan Reykjavíkur og utan.

Sameiginlegir tónleikar

Þann 11. mars 1995 tók sveitin þátt í tónleikum í Perlunni með Lúðrasveitinni Svanur, Skólalúðrasveit Akraness og Lúðrasveit Þorlákshafnar. Þessir sameiginlegu tónleikar gáfu tóninn hvað slíkt samstarf varðar og frá árinu 1995 hefur LV haldið fjöldamarga sameiginlega tónleika með öðrum lúðrasveitum. Þykir slíkt nú hinn eðlilegasti tónleikamáti – inn á milli hefðbundinna tónleika LV. Í fundargerðum sveitarinnar frá árinu 1995 má einnig lesa um miklar framkvæmdir á húsnæði sveitarinnar. Með reglulegu millibili í gegnum árin, eftir því sem efni og aðstæður hafa leyft, hefur sveitin reynt að betrumbæta húsnæði sitt í Skúlatúni.

Í lok ársins 1995 urðu tvenn markverð tíðindi. Á aðalfundi sveitarinnar í október var ákveðið að gera Björgvin Kjartansson að heiðursfélaga LV. Björgvin hafði þá nýlega hætt að leika með sveitinni eftir farsælt starf sem náði aftur til ársins 1967. Heldur sorglegri tíðindi bárust sveitinni um svipað leyti, en þá sagði Malcolm stjórnandi upp starfi sínu og voru kveðjutónleikar hans sem stjórnanda haldnir í Bústaðakirkju í lok nóvember. Mikil eftirsjá var að Malcolm, enda hafði hann tekið sveitina traustum tökum frá fyrsta starfsdegi, sniðið af henni ýmsa vankanta og gert hana að betur spilandi lúðrasveit.

Tryggvi M. Baldvinsson tekur við

Í byrjun árs 1996 fékk LV til liðs við sig nýjan stjórnanda, Tryggva Martein Baldursson. Tryggvi fékk tónlistarlegt uppeldi hjá Lúðrasveitinni Svanur og lagði svo fyrir sig tónlist í námi sínu og nam m.a. tónsmíðar og kontrapunkt í Vínarborg. Mikill fengur var að fá Tryggva til sveitarinnar og fór það svo að Tryggvi stjórnaði sveitinni farsællega í rétt tæp 10 ár.

Fyrstu verkefni Tryggva voru tvennir sameiginlegir tónleikar, annars vegar í Ráðhúsinu með Lúðrasveitinni Svanur og Skólahljómsveit Kópavogs og hins vegar 20 ára afmælistónleikar Tónlistarsambands alþýðu í Háskólabíói. Þann 20. apríl 1996 var svo komið að fyrstu heilu tónleikum Tryggva með LV. Dagskráin var metnaðarfull og innihélt meðal annars Mars úr Plánetunum eftir Gustav Holst. Guðrún Birgisdóttir flautuleikari lék og einleik með sveitinni á tónleikunum í verkinu Concertino fyrir flautu ó. 107 eftir Cécile Chaminade. Tryggvi var lunkinn við að fá einleikara til að spila með LV og á vortónleikum árið 1997 lék Eydís Franzdóttir óbóleikari einleik með sveitinni.

Sumarið 1997 tók LV þátt í landsmóti SÍL á Selfossi og var það eftirminnileg ferð fyrir margar sakir. Heldur varð þátttakan á landsmótinu endasleppt, því sveitin þurfti að fara til baka á laugardagskvöldi, enda var von á forseta Ítalíu til landsins á sunnudagsmorgninum og til stóð að spila þjóðsöngva þjóðanna við komu hans. Slíkar spilamennskur við komur forseta hafa verið fjölmargar í gegnum árin þótt heldur hafi dregið úr komum forseta til landsins í seinni tið.

Einn góðan laugardag í nóvembermánuði árið 1997 fór LV í eftirminnilegt ferðalag, en þann dag hélt hljómsveitin tvenna tónleika. Annars vegar fyrir fanga á Litla-Hrauni og hins vegar fyrir vistmenn og starfsfólk á Sólheimum. Haustið 1997 var ákveðið að sleppa hefðbundnum hausttónleikum, en þess í stað hélt sveitin nýárstónleika í Ráðhúsinu snemma janúarmánaðar. Tónleikarnir tókust vel en ekki varð samt framhald á tónleikahaldi í kringum nýárið. Um Hvítasunnuna árið 1998 fór LV í heilmikið ferðalag til Akureyrar og hélt meðal annars tónleika í Akureyrarkirkju á Hvítasunnudag. Haustið 1998 tók Þórhildur Guðmundsdóttir við formennsku í lúðrasveitinni, fyrst kvenna í langri sögu sveitarinnar.

Erfiðasta spilamennskan

Ein erfiðasta spilamennska sem LV hefur tekið þátt í um dagana var í októbermánuði árið 1998. Þá óskaði forsætisráðuneytið eftir því við LV að sveitin léki sorgarmarsa við komu kistu Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur, þáverandi forsetafrúar, en hún hafði látist á spítala í Bandaríkjunum þann 12. október. Fyrirvarinn var afar stuttur og LV var vandi á höndum því að í ljós kom að engir íslenskir sorgarmarsar voru til í útsetningu fyrir lúðrasveit. Ekkert verkefni er þó LV ofviða og ræstir voru út tveir útsetjarar sem unnu næturlangt við útsetningu sorgarmarsa. Rúmum tveimur sólarhringum eftir að beiðnin barst stóð svo fullmönnuð lúðrasveit á Keflavíkurflugvelli og lék þar sorgarmarsa á meðan að kistan var flutt frá borði flugvélar. Afar kalt var í veðri þennan dag og mjög hvasst í ofanálag á flugvellinum. Má leiða að því líkum að aldrei hafi lúðrasveit á Íslandi orðið eins kalt eins og þennan eftirmiðdag. Verkefnið var hins vegar leyst með sóma.

Frumlegir tónleikastaðir

Vortónleikarnir árið 1999 voru haldnir í Seltjarnarneskirkju. Þar lék einleik með sveitinni einn öflugasti klarinettuleikari sem sveitin hefur eignast, Sveinhildur Torfadóttir. Sveinhildur byrjaði líka óvanalega snemma að spila með LV, eða rétt í kringum 10 ára afmæli sitt.

Tryggvi Baldvinsson var afar snjall við að finna frumlega tónleikastaði. Einir flottustu tónleikar LV fyrr og síðar voru til dæmis haldnir í maímánuði árið 2000 í Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar sem staðsett var beint á móti æfingarhúsnæði LV við Skúlatún. Þar bar til tíðinda að leikinn var marsinn March Paralelle sem Tryggvi hafði samið stuttu áður og tileinkað sveitinni. Var um frumflutning á Íslandi að ræða. Firnagóður mars hjá Tryggva sem LV hefur haft reglulega á tónleikadagskrá sinni. Húsnæði Vélamiðstöðvarinnar var svo rifið stuttu seinna, en LV elti Vélamiðstöðina í nýja húsnæðið í Grafarvogi og hélt þar tónleika tæplega tveimur árum síðar.

Vorið 2000 var býsna annríkt hjá LV. Í maímánuði fengum við heimsókn frá svissneskri lúðrasveit frá bænum Inkwil, en meðlimur úr þeirri sveit hafði einmitt leikið með LV á meðan hann lagði stund á nám við Háskóla Íslands. Í lok maí héldu sveitirnar sameiginlega tónleika. Helgina á eftir fór svo LV í upptökuver FÍH til að taka upp geisladisk með mörsum. Var það löng og ströng helgi og miklu púðri eytt í upptöku alls konar marsa. Því miður fór það svo að upptakan reyndist ónothæf og gölluð þegar farið var í eftirvinnslu og var þar með sá diskur úr sögunni, illu heilli. Um Hvítasunnuna var svo haldið til Akureyrar á Landsmót SÍL.

Haustið 2000 hélt svo sveitin sína fyrstu barnatónleika þar sem valin var tónlist til flutnings sem hæfði börnum og börn hefðu gaman að.

Enn og aftur fann Tryggvi svo frumlegan tónleikastað í maímánuði 2001. Þá voru vortónleikar sveitarinnar haldnir í Þjónustumiðstöð Vátryggingafélags Íslands innan um tjónabíla á bílalyftum!

Vorið 2002 var svo komið að Rússlandsævintýri LV. Það hófst með tónleikum í Vélamiðstöðinni við Gylfaflöt þar sem eingöngu var flutt tónlist frá Rússlandi og Sovétríkjunum sálugu. Básúnuleikarinn Ingi Garðar Erlendsson lék þá einleik með sveitinni. Starfsfólki rússneska sendiráðsins var sérstaklega boðið á tónleikana og kom fjölmenni í rútu frá sendiráðinu að hlýða á tónleikana. Mátti þarna sjá vasaklúta á lofti og tár á hvörmum þegar sveitin flutti meðal annars rússneska þjóðsönginn.

Í júnímánuði árið 2002 tók LV svo þátt í hátíðarhöldum sjómannadagsins á Neskaupstað. Sveitin hélt  meðal annars tónleika í safnaðarheimili Norðfjarðarkirkju. Ferð þessi var í aðra röndina farin til að heiðra minningu fyrsta stjórnanda sveitarinnar og eins af stofnendum LV, Haraldar Guðmundsson, en Haraldur var einmitt Norðfirðingur. Við hæfi þótti á þessum tónleikum að leika tónlist frá Sovéttímanum, en einnig var fluttur mars eftir Harald, Mars opus 8, í útsetningu sonar hans, Hlöðvers Smára Haraldssonar. Sveitin heimsótti einnig í ferðinni leiði Haraldar í Norðfjarðarkirkjugarði og lék marsinn hans við það tækifæri.

50 ára afmæli

Árið 2003 var stórt ár hjá sveitinni. Haldið skyldi upp á 50 ára afmæli LV með pompi og prakt. Í afmælisnefnd voru skipaðir 3 gamlingjar í sveitinni, þeir Torfi Karl Antonsson, Borgar Jónsteinsson og Eggert Jónasson. Auk þeirra báru stjórn LV og þáverandi formaður, Einar Freyr Magnússon, hitann og þungan af undirbúningi afmælishátíðarinnar. Svo vel vildi til að afmælisdaginn bar upp á laugardag og var því auðvelt um vik að halda afmælistónleikana þann dag. Tónleikarnir voru í Langholtskirkju og sóttu okkur heim margir merkir gestir, m.a. forseti Íslands og eiginkona, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff. Sérstakt afmælisrit kom út á afmælisdaginn og var dreift á tónleikunum. Bryddað var upp á nýjung á þessum tónleikum hvað það varðar að sett var saman hljómsveit eldri félaga sem æfði stíft fyrir tónleikana og lék á þeim fjögur lög. Tóku þar við stjórnendaprikinu fjórir eldri stjórnendur LV, þeir Ólafur L. Kristjánsson, Ellert Karlsson, Jóhann Ingólfsson og Malcolm Holloway. Afmælisdagurinn er í heild sinni hinn bjartasti í minningu þeirra sem þar tóku þátt. Um kvöldið var svo haldin fjölmennasta árshátíð LV fyrr og síðar, en þar mættu alls tæplega 90 manns, bæði þáverandi og eldri félagar ásamt mökum og áttu þar saman frábæra kvöldstund.

Síðar á afmælisárinu hélt forseti Íslands móttöku fyrir lúðrasveitina að Bessastöðum í tilefni af hálfrar aldar afmælinu. Var það afar hátíðleg stund fyrir félaga sveitarinnar og lifir lengi í minnum manna.

Ekki er hægt að skilja við hálfrar aldar afmæli Lúðrasveitar verkalýðsins án þess að minnast eins merkisviðburðar á afmælisárinu. Á afmælistónleikunum í Langholtskirkju var Torfi Karl Antonsson gerður að heiðursfélaga sveitarinnar. Var tillaga þess efnis samþykkt einróma á félagsfundi í sveitinni stuttu áður. Voru menn sammála um að enginn annar hefði unnið Lúðrasveit verkalýðsins meira gagn í gegnum tíðina en Torfi Karl. Áratugum saman hefur Torfi Karl verið vakinn og sofinn yfir starfsemi sveitarinnar, meðal annars sem formaður hennar til 17 ára.

Útrás

Í apríl var komið að því að LV legði land undir fót og héldi á erlenda grundu, í fyrsta sinn síðan árið 1989. Þá var haldið til Rússlands, nánar tiltekið til St. Pétursborgar. Í ferðinni, sem tókst í alla staði vel, voru haldnir tvennir tónleikar, annars vegar í Rimski Korsakoff tónlistarskólanum og hins vegar á Radison SAS hótelinu þar í borg. Farið var í fjölmargar skoðunarferðir, Kirov ballettinn heimsóttur sem og listasöfn og aðrir merkir staðir. Í ágúst 2003 hélt svo sveitin í aðra tónleikaferð, að þessu sinni á lúðrasveitamót í Sviss. Var þar með endur-goldin heimsókn svissneskrar lúðrasveitar frá sama bæ sem heimsótti LV árið 2000. Ferðalagið til Sviss var langt og strangt, en upplifunin þegar komið var á staðinn var frábær. Móttökur einstaklega góðar, mikið spilað, en einnig gafst tími til góðra kynna og gleðskapar!

Viðburðaríku afmælisári lauk svo með barnatónleikum í Ráðhúsinu í nóvember.

Árið 2004 hófst fjörlega. Í marsmánuði tókum við á móti norskri lúðrasveit, Ringerike Janitsjar, en stjórnandi hennar þá var einmitt fyrrum básúnuleikari LV, Einar Jónsson. Stuttu síðar kom LV svo fram sem gestasveit á tónleikum Skólahljómsveitar Austurbæjar og 17. apríl hélt svo sveitin tónleika með breskri tónlist í Seltjarnarneskirkju. Þann 18. júní, daginn eftir þjóðhátíðarspilamennsku hélt svo sveitin á landsmót SÍL í Vestmannaeyjum.

Tryggvi kveður - Malcolm tekur við

Vorið 2005 kvaddi Tryggvi M. Baldvinsson lúðrasveitina. Á þessum síðustu tónleikum Tryggva voru spiluð lög sem voru í sérstöku uppáhaldi hjá Tryggva. Einnig ber að geta aðkomu Sveinhildar Torfadóttur að tónleikunum, en hún kom heim frá Belgíu þar sem hún stundaði nám í klarínettuleik og lék einleik með sveitinni. Líklega má segja að einleikur Sveinhildar hafi verið við hæfi á þessum tónleikum því að þetta voru jafnframt kveðjutónleikar föður hennar Torfa Karls Antonssonar með sveitinni.

Eftir að Tryggvi lét af störfum var auglýst eftir nýjum stjórnanda og úr hópi umsækjenda var Malcolm Holloway valinn og tók hann því aftur við sprotanum haustið 2005.

Síðastliðinn áratug hefur Lúðrasveit verkalýðsins gert sér far um að höfða til allra aldurshópa með því að halda næstum árlega barna- og fjölskyldutónleika. Fyrir þessa tónleika hafa oftar en ekki verið sett út ný tónverk fyrir lúðrasveitina og má þar nefna syrpu úr Latabæ, lög eftir Mika og tónlist úr Skilaboðaskjóðunni. Lúðrasveitin hefur í þessum tilfellum fengið ýmsa kynna til liðs við sig. Sem dæmi má nefna Felix Bergsson, Sollu stirðu, Skoppu og Skrítlu og Sveppa og Villa sem brugðið hafa á leik með sveitinni.

All oft á síðustu árum hefur lúðrasveitin farið út á land til að taka þátt í sjómannadagshátíðarhöldum. Bæði hefur sveitin spilað og tekið þátt í róðrarkeppnum og öðrum skemmtunum. Áfangastaðir þessara ferða hafa meðal annars verið Bolungarvík, Vestmannaeyjar, Grindavík, Grundarfjörður og nú síðast Ólafsvík.

Ferskur andblær með Snorra

Á vorönn 2007 urðu næstu stjórnendaskipti. Nú var það Snorri Heimisson sem tók við sveitinni. Snorri starfar sem tónlistarkennari en hafði kynnst lúðrasveitinni á árum áður þegar hann spilaði með henni, bæði á fagott sem er hans aðalhljóðfæri og einnig á flautu.

Þegar Snorri tók við var búið að skipuleggja ferð til Washington D.C. í Bandaríkjunum. Það varð því eitt af hans fyrstu verkefnum með sveitinni að leiða hana í gegnum þá ferð, þar sem sveitin tók þátt í National Cherry Blossom hátíðarhöldunum með séríslensku prógrammi.

Snorri var hugmyndaríkur og duglegur að koma sveitinni í alls kyns spennandi samstarfsverkefni. Stærst þeirra verkefna var útgáfa á tónlist 200.000 naglbíta ásamt Lúðrasveit verkalýðsins. Fengnir voru 5 útsetjarar til að vinna 10 vinsæl lög Naglbítanna fyrir lúðrasveitina. Við tóku langar og strangar æfingar sem enduðu í upptökuveri í apríl og maí árið 2008.  Afraksturinn kom svo út á hljómdiski í desember sama ár. Haldnir voru tvennir útgáfutónleikar. Þeir fyrstu voru á Akureyri, heimabæ Naglbítanna, og þeir seinni í Gamla bíói í Reykjavík. Einnig var gerð heimildarmynd um verkefnið og var henni dreift með hljómdisknum. Mun þetta líklega vera í fyrsta skipti, að minnsta kosti á Íslandi, sem lúðrasveit hefur átt lag í fyrsta sæti vinsældarlista Rásar 2.

Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur tóku sig saman og héldu saman marsatónleika þrjú ár í röð. Fyrir tvenna af þessum tónleikum var ákveðið að láta semja tónverk sem hugsuð væru fyrir tvær lúðrasveitir og einkennast verkin af því að sveitirnar tvær eru sitt á hvað að kallast á eða spila saman.   Höfundar þessara tveggja verka voru þau Einar Jónsson sem samdi verkið Gengið á regnbogann og Þórunn Guðmundsdóttir með verkið Snæri. Frí var tekið frá þessari nýju hefð á þessu afmælissári, en hver veit nema áfram verði haldið á komandi árum.

Í samstarfi við Söngsveitina Fílharmóníu og Kór Fella- og Hólakirkju var Einar Jónsson fenginn til að útsetja verkið Magnificat eftir John Rutter fyrir lúðrasveit.  Tvennir tónleikar voru haldnir í Fella- og Hólakirkju í febrúar 2010 þar sem tæplega 80 manna kór og 50 manna lúðrasveit, ásamt einsöngvaranum Nönnu Mariu Cortes, fluttu þetta magnaða tónverk.

Eitt vorið tók Snorri upp á því að fá lúðrasveitir borgarinnar til að marsera víðsvegar um borgina á hverjum degi í heila viku. Verkefnið hét Blásum lífi í borgina og tóku bæði Lúðrasveit Reykjavíkur og Lúðrasveitin Svanur ásamt nokkrum skólahljómsveitum þátt í verkefninu, sem vissulega færði líf í borgina!

Í nokkur skipti hefur Lúðrasveit verkalýðsins tekið á móti þúsundum gesta á leið á Frostrósa tónleika í Laugardalshöll á aðventunni.

Lúðrasveitin kvaddi Snorra með stórglæsilegum popp/rokk tónleikum sem haldnir voru í sal Menntaskólans við Hamrahlíð á vorönn 2011.

Kári Húnfjörð tekur við

Haustið 2011 tók Kári Húnfjörð Einarsson núverandi stjórnandi sveitarinnar við.  Lúðrasveitin hefur enn eflst undir stjórn Kára og eru virkir félagar sveitarinnar nú hátt í sextíu talsins.

Undir stjórn Kára Húnfjörð hélt lúðrasveitin upp á sex áratuga starfsemi sína með glæsilegum tónleikum í ráðhúsi Reykjavíkur þar sem danstónlist var í hávegum höfð, og spannaði efnisskrá tónleikanna allt frá klassískum dönsum til popp og latíndansa.

Á afmælisárinu 2013 hélt sveitin síðan til Kanada og lék fyrir íbúa Toronto eins og henni einni er lagið. Í Toronto tók hljómsveitin The Lemon Bucket Orchestra vel á móti félögum í sveitinni og saman héldu þessar sveitir útitónleika með sannkallaðri karnivalstemningu. Eldgleypar, salsa-ásláttarsveit og að sjálfsögðu mikil mannmergð. Undir lok ferðarinnar var stefnan sett á Niagara-falls og lék sveitin fyrir gesti og gangandi við fossana.

Á menningarnótt Reykjavíkur það sama ár efndi lúðrasveitin til sérstakrar sögugöngu um miðbæ Reykjavíkur undir leiðsögn reyndra félaga sveitarinnar, þar sem heimsóttir voru merkir staðir í sögu sveitarinnar og leikin verk sem tengjast sögunni sterkum böndum.

Lúðrasveitin og verkalýðshreyfingin

Lúðrasveitin hefur alla tíð átt gott samstarf við verkalýðshreyfinguna, bæði fulltrúaráð hennar, heildarsamtökin og ekki síst við einstök verkalýðsfélög. Að sama skapi er með sanni hægt að segja að ekki stæði starfsemi sveitarinnar í jafn miklum blóma og raun ber vitni nema fyrir einstakan stuðning og velvilja verkalýðshreyfingarinnar.

Sveitin hefur ávallt verið tilbúin að spila við öll möguleg tækifæri hjá verkalýðsfélögunum, hvort heldur er á kaffisamkomum 1. maí ár hvert, í kröfugöngum eða jafnvel fyrir utan Karphúsið til að hraða samningsviðræðum!

Reykjavíkurborg hefur og sýnt lúðrasveitinni mikinn velvilja og stutt fjárhagslega við starfið allt frá árinu 1960. Árið 2012 heiðraði Reykjavíkurborg sveitina með því að útnefna hana Tónlistarhóp Reykjavíkur árið 2012, ásamt Lúðrasveitinni Svanur og Lúðrasveit Reykjavíkur.

Áfram veginn

Svo háttar til að það eru ekki margir tónlistarhópar áhugafólks – hvort sem um er að ræða kóra eða hljómsveitir – sem endist örendið til langframa. Krafan um ástundun og óþrotlega vinnu reynist oft of þung byrði og félög hætta starfsemi og leggjast niður. Og þrátt fyrir áhuga brautryðjendanna á fyrstu árunum verður að segjast að líklega hefur engan þeirra grunað að hið fámenna félag sem þeir efndu til þann 8. mars 1953 mundi enn vera lífs að rúmum sex áratugum liðnum… Hvað þá að þá hafi dreymt um að þá mundi skipa Lúðrasveit verkalýðsins sá fjölmenni og glæsilegi hópur sem nú er raun á.

Ágripið af sögu LV er að stofni til grein sem Atli Magnússon ritaði í 40 ára afmælisrit lúðrasveitarinnar 1993.
Við ritun þessarar greinar var eldri greinin lítillega stytt og aðlöguð af þeim Borgari Jónsteinssyni og Eggert Jónassyni.
Fékkst til þeirra breytinga góðfúslegt leyfi frá Atla Magnússyni.
Saga 1993-2013 er svo rituð af Önnu Kristínu Jeppesen, Borgari Jónsteinssyni og Eggert Jónassyni.
Aðlagað fyrir vef 2014, Ívar Baldvin Júlíusson.