Lög félagsins

samþykkt á aðalfundi 15. janúar 2024

1.Kafli
Nafn, heimili og tilgangur félagsins

1. Grein
Nafn félagsins er Lúðrasveit verkalýðsins, skammstafað LV, og er lögheimili og varnarþing þess í Reykjavík.

2. Grein
Markmið félagsins er að efla tónmennt meðal almennings, leika á útifundum, í kröfugöngum og á öðrum samkomum alþýðunnar.  Þá skal félagið standa fyrir að minnsta kosti einum tónleikum ár hvert.

3. Grein
Félagið starfar í tengslum við Menningar- og fræðslusamband alþýðu og fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík.

2.Kafli
Innganga nýrra félaga og úrsögn

4. Grein
Félagsmenn teljast þeir, er starfa fyrir félagið og almennur félagsfundur hefur samþykkt í félagið með tveimur þriðju greiddra atkvæða.

5. Grein
Við inngöngu í félagið skuldbindur umsækjandi sig til að gerast háður lögum félagsins og samþykktum. Upplýsa ber hvern nýjan meðlim um lög félagsins.

6. Grein
Starfandi aðalmeðlimir annarra lúðrasveita geta orðið meðlimir félagsins, en án atkvæðisréttar. Atkvæðisrétt hafa aðeins aðalmeðlimir félagsins sem starfandi eru á hverjum tíma og skal stjórn félagsins hafa á hverjum fundi skrá yfir starfandi aðalmeðlimi. Almennur félagsfundur getur vikið mönnum úr félaginu með meiri hluta atkvæða. Stjórn félagsins ákveður hverjir skulu teljast starfandi meðlimir.

3. Kafli
Eignir félagsins

7. Grein
Enginn má afhenda hljóðfæri eða önnur áhöld nema áhaldavörður í samráði við stjórn félagsins. Stjórn félagsins er heimilt að taka hljóðfæri af meðlim félagsins mæti hann ekki á æfingar í einn mánuð og boði ekki forföll. Engum félagsmanni er heimilt að nota hljóðfæri eða önnur áhöld félagsins, er hann hefur að láni, til annars en í þágu þess, án samþykkis áhaldavarðar eða formanns.  Félagsmaður ber ábyrgð á því hljóðfæri sem hann hefur undir höndum, í eigu sveitarinnar samkvæmt vinnureglum settum af stjórn sveitarinnar.

8. Grein
Einkennisbúningar og aðrir lausafjármunir félagsins, sem meðlimir þarfnast ekki utan æfingastöðvar til æfinga, skulu ávallt geymdir í bækistöð félagsins í umsjón áhaldavarðar, nema með sérstöku leyfi áhaldavarðar, sem hafi skrá yfir þá félaga sem hafa búninga félagsins heima hverju sinni. Stjórn félagsins setji reglur um útlit og meðferð búningsins hverju sinni. Reglur þessar hangi uppi í félagsheimili sveitarinnar. Áhaldavörður skal sjá til þess að reglum þessum sé framfylgt.

9. Grein
Eigur félagsins á félagið sem heild, en ekki hver einstakur meðlimur þess. Félagsfundur hefur ráðstöfunarrétt á öllum lausafjármunum félagsins og þarf samþykki meirihluta félagsfundar til þess að ráðstafa þeim. Réttur til ráðstöfunar fastafjármuna félagsins er háður samþykki stjórnar Menningar- og fræðslusambands alþýðu, fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík og meiri hluta félagsstjórnar.

4. Kafli
Stjórn félagsins

10. Grein
Stjórn félagsins skal kjósa til eins árs í senn að viðhafðri leynilegri kosningu á aðalfundi. Hana skipa fimm menn: formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Þeir skulu allir hafa jafnan atkvæðisrétt á fundum. Þá skal kjósa á aðalfundi tvo menn í varastjórn. Kjörgengir við kosningu stjórnar eru starfandi aðalmeðlimir félagsins.

11. Grein
Stjórn félagsins ber ábyrgð á öllum gerðum þess, og skal ekkert framkvæmt án vitundar hennar og samþykkis meirihluta hennar, nema um annað sé kveðið á í lögum þessum. Stjórnin skal í sameiningu annast alla stjórn á starfsemi félagsins og skal henni heimilt að kalla félagsmenn sér til aðstoðar í störfum sínum telji hún þess þörf. Stjórnin skal kalla saman fund, þá hún telur þess þörf.

12. Grein
Stjórn félagsins er heimilt að skipa þriggja manna nótnanefnd sem er stjórnanda til aðstoðar um verkefnaval. Auk þess skal nótnanefnd sjá um að vel sé farið með nótur félagsins og að halda nótnasafni félagsins til haga með því að merkja, flokka og geyma nótur á viðeigandi stöðum. Nótur skal skrá jafnóðum í nótnaskrá.

13. Grein
Formaður skal hafa yfirumsjón með störfum félagsins og koma fram fyrir hönd þess á opinberum vettvangi. Hann gerir einnig samninga fyrir hönd félagsins að fengnu samþykki stjórnar. Formaður stjórnar fundum félagsins, þó getur hann tilnefnt fundarstjóra, ef honum sýnist svo. Einnig getur hann tilnefnt fundarritara, ef ritari æskir þess. Formaður undirritar alla reikninga félagsins og bréf.

14. Grein
Varaformaður skal ávallt vera reiðubúinn til að gegna störfum formanns í fjarveru hans eða samkvæmt óskum hans. Á meðan varaformaður gegnir embætti formanns hlýtur hann sjálfkrafa öll réttindi og skyldur formanns sem að á kveður í lögum þessum.

15. Grein
Ritari skal færa fundargerðabók félagsins. Auk þess er honum skylt að færa nákæma samþykktabók yfir allar samþykktir er kunna að verða gerðar á æfingum eða fundum. Ennfremur skal ritari færa nákvæma dagbók yfir starfsemi félagsins, hvar og hvenær hljómleikar voru haldnir og hvaða verkefni flutt. Ritari skal einnig sjá um allar bréfaskriftir fyrir félagsins hönd.

16. Grein
Gjaldkeri skal halda rekstrarbókhald félagsins með því að skrá tekjur og gjöld félagsins í dagbók eftir fylgiskjölum. Gjaldkeri skal einnig færa efnahagsreikning félagsins hverju sinni við lok reikningsárs. Eignir félagsins skal skrá við eðlilegu söluverði þeirra hverju sinni. Heimilt skal gjaldkera að kalla sér til aðstoðar félagsmenn eða utanaðkomandi aðila við mat eigna félagsins. Gjaldkeri skal á hverjum tíma ávaxta eigur félagsins á sem arðbærastan hátt. Þá er gjaldkera óheimilt að greiða fé úr sjóðum félagsins til annars en daglegs rekstrar, án samþykkis stjórnar félagsins. Reikninga félagsins skal gjaldkeri hafa til reiðu fyrir endurskoðendur eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Gjaldkera er skylt að sjá svo um að allir fái endurskoðaða reikninga félagsins í hendur á aðalfundi.

5. Kafli
Embættismenn og nefndir

17. grein
Aðalfundur skal kjósa áhaldavörð. Áhaldavörður hefur umsjón með hljóðfærum, búningum og öðrum áhöldum félagsins hvar sem verið er með þau, og er honum heimilt að kalla félagsmenn sér til aðstoðar álíti hann þess þörf. Áhaldavörður skal halda nákvæma áhaldaskrá yfir öll áhöld félagsins, er félagsmenn fá að láni yfir lengri og skemmri tíma.

18. grein
Aðalfundur eða stjórn geta kosið húsvörð. Húsvörður skal sjá um húsnæði félagsins, að vel sé frá öllu gengið. Húsvörður er eldvarna- og öryggisfulltrúi fyrir húsnæði félagsins og skal árlega yfirfara húsnæði og búnað samkvæmt kröfum eftirlitsaðila. Ef húsvörður er ekki kosinn skipar stjórn í þetta hlutverk. Húsvörður skal gera tillögur til stjórnar um úrbætur á því sem aflaga fer. Húsvörður skal hafa umsjón með breytingum og lagfæringum á húsnæði og er honum heimilt að kalla félagsmenn sér til aðstoðar. Húsvörður og stjórn félagsins ráðstafa sameiginlega húsnæði félagsins utan æfinga. Húsvörður sækir húsfélagsfundi ef það á við fyrir hönd stjórnar og gefur skýrslu um slíka fundi til stjórnar. Húsvörður skal gera ársskýrslu yfir starf sitt og skila stjórn, eigi síðar en viku fyrir aðalfund.

19. Grein
Aðalfundur eða stjórn geta kosið gagnastjóra.  Gagnastjóri skal sjá um að á vísum stað séu geymd afrit af félaga- og símaskrá yfir starfandi félaga auk nótnaskráar og annarra mikilvægra gagna. Hann skal einnig sjá um að viðhalda rafrænum samskiptum félagsmanna. Gagnastjóra er heimilt að kalla félagsmenn sér til aðstoðar telji hann þess þörf

20. Grein
Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga. Þeir eru kosnir til eins árs í senn og eru ábyrgir gagnvart aðalfundi félagsins. Skoðunarmenn skulu yfirfara reikninga gjaldkera og fullvissa sig um að þeir séu réttir. Skoðunarmenn skulu gera skýrslu yfir starf sitt og skal hún liggja fyrir ásamt reikningum félagsins eigi síðar en þremur dögum fyrir aðalfund. Skoðunarmenn skulu einnig gegna hlutverki kjörnefndar á aðalfundi ásamt fundarstjóra.

21. Grein
Á aðalfundi skal kjósa skemmtinefnd. Skemmtinefnd skal sjá um undirbúning og framkvæmd allra skemmtana á vegum félagsins. Á aðalfundi skal kjósa minnst þrjá félagsmenn í skemmtinefnd, en öllum sem bjóða sig fram skal heimilt að starfa í nefndinni. Skemmtinefnd er einnig heimilt að kalla félagsmenn sér til aðstoðar við öll stærri verkefni. Skemmtinefnd skal skipa formann nefndarinnar úr sínum röðum.

22. Grein
Aðalfundur eða stjórn geta kosið þriggja manna fjáröflunarnefnd. Fjáröflunarnefnd skipuleggur fjáröflun í samvinnu við stjórn félagsins, ýmist í þágu félagsins sjálfs, og/eða vegna einstakra verkefna á vegum félagsins. Gjaldkeri félagsins skal hafa umsjón með fjárreiðum nefndarinnar. Nefndarmenn mega ekki skuldbinda félagið fjárhagslega né heldur bera þeir fjárhagslega ábyrgð á störfum nefndarinnar. Nefndinni ber að starfa með það að leiðarljósi að stofna ekki fjárhag félagsins í hættu með fjáröflun sinni. Fjáröflunarnefnd skal skipa formann nefndarinnar úr sínum röðum. Fjáröflunarnefnd er heimilt að kalla félagsmenn sér til aðstoðar telji hún þess þörf.

6. Kafli
Heiðursfélagar og heiðursmerki

23. Grein
Heiðursfélagar skulu kjörnir á félagsfundi eða aðalfundi og kjör þeirra samþykkt einróma. Þeir skulu vera félagar, sem hafa sýnt frábæran dugnað og fórnfýsi, félaginu til eflingar og álitsauka.

24. Grein
Heiðursfélagar skal veittur sérstakur heiðurspeningur úr gulli, auk skrautritaðs heiðursskjals, sem er tölusett og undirritað af stjórn félagsins. Heiðursfélagar skulu hafa ókeypis aðgang að öllum samkomum félagsins sem og fundum og æfingum. Þeir skulu hafa málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt.

25. Grein
Heiðursfélagatal skal skrá í lagasafn félagsins.

Heiðursfélagatal

1989
Sigursveinn D. Kristinsson
Ólafur L. Kristjánsson
Atli Magnússon
Ellert Karlsson
1993
Sigurður Hannesson
1995
Björgvin Kjartansson
2003
Torfi Karl Antonsson
2014
Eggert Jónasson
Borgar Jónsteinsson

26. Grein
Hver meðlimur, sem starfað hefur hver full fimm starfsár, hvort sem hann er aðalmeðlimur eða ekki, skal fá aldursstjörnu í einkennisbúning sinn. Sérstakt heiðursmerki skal veita félagsmönnum fyrir langa þjónustu í þágu félagsins. Eftir 10 ár silfurmerki, eftir 25 ár gullmerki.

7. Kafli
Starfsemi félagsins

27. Grein
Starfsár félagsins hefst 1. janúar og lýkur 31. desember. Reikningsár er sama og starfsár. 

28. Grein
Félagið skal koma fram sem ein heild og án tillits til stjórnmála eða skoðana óviðkomandi félaginu. Verði ágreiningur um félagið innan verkalýðshreyfingarinnar, skal félagið leitast við að fylgja meirihluta verkalýðshreyfingarinnar, en öllu jöfnu koma þar fram sem þess er óskað.

29. Grein
Stjórnanda til sveitarinnar skal ráða til eins árs í senn, með þriggja mánaða uppsagnarfresti af beggja hálfu. Komi fram tillaga um að segja stjórnanda upp starfi skal stjórn félagsins tafarlaust boða til félagsfundar. Til að tillagan nái fram að ganga þarf samþykki 2/3 félagsmanna. Stjórnandi sveitarinnar hefur rétt til setu á fundum félagsins og tillögurétt. Stjórnandinn hefur ekki atkvæðisrétt. Óski stjórnandi aðildar að félaginu, eða sé það fyrir, nýtur hann atkvæðisréttar til jafns við aðra félagsmenn. Stjórnandi skal starfa í samvinnu við nótnanefnd við verkefnaval, hafi nótnanefnd á annað borð verið skipuð samkvæmt 12.gr. þessara laga. Stjórnandi skal fylgjast með ástundun félagsmanna. Stjórnanda ber einnig að prófa nýja meðlimi þyki honum ástæða til eða að ósk berst þess efnis. Stjórnanda er heimilt að synja nýjum aðilum um þátttöku í starfi sveitarinnar á grundvelli þessarar prófunar.

30. Grein
Til aðalfundar skal boða með auglýsingu á æfingarstað, bréfi eða tölvupósti til félagsmanna minnst 2 vikum fyrir fundardag, og skal aðalfundur ekki haldinn síðar en 8. mars ár hvert.  Til félagsfunda skal stjórnin boða með auglýsingu á æfingarstað, bréfi eða tölvupósti til félagsmanna.  Í fundarboði skal stuttlega geta þeirra mála er fjallað skal um á fundinum. 20% félagsmanna að lágmarki hafa rétt til að krefjast félagsfundar. Skal það gert skriflega og greina frá fundarefni.  Stjórninni er skylt að boða til fundarins með venjulegum hætti og skal hann haldinn innan 21 dags frá því að henni barst krafa þar um. Geta skal fundarefnis í fundarboði. Ef tillögur að lagabreytingum berast samkvæmt 36. grein þessara laga, skal stjórn birta tillöguna 3 dögum fyrir aðalfund með venjulegum hætti.

31. Grein
Verkefni aðalfundar eru sem hér segir:


1. Setning fundar
2. Lagðar fram skýrslur stjórnar og húsvarðar til samþykktar
3. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins ásamt skýrslu endurskoðenda til samþykktar
4. Inntaka nýrra félaga
5. Lagabreytingar
6. Kosning stjórnar, varastjórnar, embættismanna og nefnda
7. Önnur mál

32. Grein
Kosning stjórnar og varastjórnar skal vera leynileg og skrifleg. Náist við fyrstu kosningu ekki fram einfaldur meirihluti skal kjósa aftur milli tveggja efstu manna og ræður þá einfaldur meirihluti úrslitum. Kosning til embættismanna og nefnda skal fara fram með handauppréttingum.

33. Grein
Aðalfundur og félagsfundur er löglegur sé ½ félagsmanna (starfandi aðalmeðlima) mættur og sé til hans boðað löglega. Ef aðalfundur eða félagsfundur reynist ólögmætur sökum ónógrar þátttöku skal boða til nýs fundar innan mánaðar. Er sá fundur lögmætur hversu fáir sem sækja hann.

34. Grein
Svo lengi sem sex menn vilja halda félaginu áfram geta hinir ekki slitið því þó þeir hafi meirihluta atkvæða. Þessa grein má aldrei fella niður.

35. Grein
Leysist félagið upp skulu eignir þess varðveittar og ávaxtaðar, þar til annað félag með sama markmið rís upp í Reykjavík. Þá skal láta þær af hendi við það félag, ef það óskar þess og komi þá til samþykki nefndar er falið yrði varðveislu eignanna, en hún yrði skipuð þremur aðilum, einum tilkvöddum af fyrrverandi félögum, er störfuðu síðast í félaginu, einum tilkvöddum af stjórn M.F.A. og einum tilkvöddum af fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík.

36. Grein
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi að undanteknum 9. gr. 2. málsgrein, 33 gr. og 34. gr., sem ekki má breyta. Þetta ákvæði má aldrei fella niður. Tillögur til lagabreytinga skulu berast stjórn félagsins eigi síðar en 1 viku fyrir aðalfund. Tillögur sem berast eftir þann tíma fást ekki bornar upp á aðalfundi. Þó er heimilt að bera fram á aðalfundi breytingartillögur við framkomnar tillögur til lagabreytinga. Skal þá breytingartillagan borin upp fyrst til samþykkis og þá tillagan sjálf eftir breytingu.

37. Grein
Til breytinga á lögum þessum þarf einfaldan meirihluta á aðalfundi og skal þá gefa út nýtt lagasafn með breytingum.

38. Grein
Lög þessi öðlast þegar gildi, og um leið eru eldri lög félagsins úr gildi fallin.

Lög lúðrasveitar verkalýðsins, samþykkt á aðalfundi 15. janúar 2024